Virðisaukaskattur

Hvað er útskattur og hvað er innskattur?

Útskattur er sá skattur sem fyrirtæki innheimtir af skattskyldri sölu sinni.

Innskattur er sá virðisaukaskattur sem fyrirtæki greiðir öðrum skattaðilum eða tollstjóra við kaup eða innflutning á vörum og öðrum aðföngum til nota í rekstrinum.

Er einungis greiddur skattur af virðisauka?

Hver söluaðili leggur skatt (útskatt) á söluverð sitt en við skil á skattinum í ríkissjóð dregur hann frá þann skatt (innskatt) sem hann hefur áður greitt. Skatturinn leggst þannig á mismun söluverðs og kaupverðs, þ.e. þann virðisauka sem verður hjá hverju fyrirtæki fyrir sig. Endanlegur neytandi greiðir útskatt smásala.

Hvert er skatthlutfall virðisaukaskatts?

Almenna skatthlutfallið er 24%. Þó er virðisaukaskattur af eftirtalinni vöru og þjónustu 11%:

 • Útleiga hótel og gistiherbergja og önnur gistiþjónusta.
 • Afnotagjöld útvarps- og sjónvarpsstöðva.
 • Sala tímarita, dagblaða og landsmála- og héraðsfréttablaða.
 • Sala bóka á íslenskri tungu, jafnt frumsaminna sem þýddra.
 • Sala á heitu vatni, rafmagni og olíu til hitunar húsa og laugarvatns.
 • Sala á matvörum, s.s. kjöti, nýlenduvörum, grænmeti, ávöxtum o.fl. vörum til manneldis. Sala veitingahúsa, mötuneyta og annarra hliðstæðra aðila á tilreiddum mat og þjónustu ber einnig 11% virðisaukaskatt.
 • Aðgangur að vegamannvirkjum.

Skatturinn reiknast af heildarverði án virðisaukaskatts.

Ferðaþjónusta

Hvaða reglur gilda um virðisaukaskattskyldu aðila sem undanþegnir eru skattskyldu samkvæmt lögum um tekjuskatt og eignarskatt?

Fyrirtæki, félög, stofnanir og aðrir aðilar, sem inna af hendi undanþegna þjónustu, eiga í sumum tilvikum að greiða virðisaukaskatt af tiltekinni starfsemi á sínum vegum að svo miklu leyti sem hún er í samkeppni við atvinnufyrirtæki. Dæmi um þjónustu sem slíkir aðilar þurfa að greiða virðisaukaskatt af er:

 • Smíði, viðhald og viðgerðir véla, tækja, húsgagna og áhalda í verksmiðju, verkstæði og starfsstöð.
 • Rekstur þvottahúss, prentstofu og mötuneytis.
 • Þjónusta þar sem krafist er iðnmenntunar.
 • Þjónusta verkfræðinga, tæknifræðinga, arkitekta, lögfræðinga, löggiltra endurskoðenda og annarra stétta er almennt þjóna atvinnulífinu.

Tilgangurinn með ofangreindri reglu er að koma í veg fyrir að aðilar sem undanþegnir eru skattskyldu geti haft með höndum starfsemi sem er í raun í samkeppni við almenna atvinnustarfsemi, án þess að greiða af henni virðisaukaskatt, og geti þannig raskað samkeppnisstöðunni gagnvart neytandanum.