Um bókhald

Úr lögum um bókhald

Núgildandi lög um bókhald, nr. 145/1994, tóku gildi 1.janúar 1995

Bókhald er upplýsingakerfi, ætlað að halda utan um tekjur, gjöld, eignir og skuldir rekstraraðila þannig að úr því megi lesa árangur rekstrar og stöðu eigna og skulda frá einum tíma til annars.

Bókhaldið er aðal stjórntæki hvers rekstraraðila, það er ekki „bara fyrir skattinn“. Hjá vel reknum fyrirtækjum, stórum sem smáum, er bókhaldið notað sem stjórntæki, því árangursríkar ákvarðanir byggja á nýjustu staðreyndum úr bókhaldi fyrirtækisins.

Bókhaldsskylda

Meginreglan er sú að allir, sem hafa einhvern rekstur eða starfsemi með höndum eru bókhaldsskyldir og eiga að færa tvíhliða bókhald.

Í örfáum undantekningatilfellum eru aðilar, sem nota ekki meira aðkeypt vinnuafl en sem svarar 52 vinnuvikum á ári, undanþegnir þeirri skyldu að færa tvíhliða bókhald. Þó aðilar kunni að vera undanþegnir þeirri skyldu að færa tvíhliða bókhald verða þeir að uppfylla ákvæði um færslu sjóðsbókar, sundurliðunarbókar, sem sýnir hreyfingar ársins á eignum og skuldum, tekjum og gjöldum, flokkaðar eftir tegundum viðskiptamannabókar, aðalbókar, efnahagsbókar o.fl.

Bókhaldsskyldir aðilar skulu haga bókhaldi sínu á skýran og aðgengilegan hátt og semja ársreikning í samræmi við lög, reglugerðir og góða bókhalds- og reikningsskilavenju.

Stjórnendur félaga, sjóða og stofnana og þeir sem ábyrgð bera á starfsemi skulu sjá um og bera ábyrgð á að ákvæðum laga um bókhald sé fullnægt.

Almenn ákvæði

Bókhaldi skal haga þannig að á skýran og aðgengilegan hátt megi rekja viðskipti og notkun fjármuna. Veita skal sundurliðaðar upplýsingar um rekstur og efnahag, sem þarfir eigenda, lánadrottna og hins opinbera krefjast og nauðsynlegar eru til að meta megi tekjur, gjöld, eignir og skuldir rekstraraðila.

Tvíhliða bókhald skal skipuleggja með tilliti til umfangs rekstrar og eðlis starfsemi. Skrifleg lýsing skal liggja fyrir á skipulagi og uppbyggingu bókhaldsins. Reikningar bókhaldsins skulu sérstaklega tilgreindir og notkun þeirra greinilega afmörkuð, svo og lýsing á tekjuskráningu, sem skal byggjast á skýru og öruggu kerfi, sem tryggir að unnt sé að sannreyna að allar tekjur komi fram. Bókhaldið skal þannig skipulagt að auðvelt sé að rekja sig frá frumgögnum til færslna í bókhaldi, svo og frá færslum til frumgagna. Jafnframt skal skipulag og stjórnun bókhaldsins við það miðuð að tryggja vörslu bókhaldsgagna og eðlilegt innra eftirlit. Með innra eftirliti er meðal annars átt við verklagsreglur þar sem kveðið er á um meðferð skjala og ábyrgðar- og verkaskiptingu og haft að markmiði að tryggja áreiðanlegt bókhald, örugga meðferð og vörslu fjármuna og að ekki hljótist tjón af villum, mistökum eða misnotkun.

Sérhver færsla í bókhaldi skal byggð á áreiðanlegum og fullnægjandi gögnum sem rekja má til viðskiptanna. Ytri sem innri gögn skulu fela í sér upplýsingar sem nægja til réttmætrar skráningar í bókhaldinu.

Færslur í bókhaldi skulu vera í skipulegri númeraröð, endurspegla að jafnaði rétta tímaröð viðskipta og annarra færslutilefna og gefa skýra mynd af því sem þeim er ætlað að lýsa.

Bókhaldsbækur

Bókhaldsbækur skulu færðar á varanlegan hátt í skipulögðu og öruggu kerfi. Bókhald þeirra aðila, sem eru skyldir til að halda tvíhliða bókhald skal samanstanda af:

1) Dagbók, þar sem allar færslur koma fram í færsluröð.
2) Hreyfingarlista, þar sem allar færslur dagbókar hafa verið flokkaðar á viðeigandi bókhaldsreikninga.
3) Aðalbók, þar sem fram kemur staða hvers einstaks bókhaldsreiknings.
4) Ársreikningi, sjá grein um ársreikninga.
Ath. Að bækur samkvæmt 1.-3. Tölulið nefnast fjárhagsbókhald.


Í fjárhagsbókhaldi eða sérstöku viðskiptamannabókhaldi, sem tengist fjárhagsbókhaldinu, skal hafa reikninga yfir viðskipti við hvern viðskiptamann.

Að jafnaði skal haga reikningaskiptan í bókhaldinu þannig að færðir séu hreinir eigna- og skulda- gjalda- og reknareikningar. Færa skal þá reikninga í bókhaldinu, sem nauðsynlegir eru til að eðlileg sundurliðun náist með tilliti til tegundar og stærðar starfseminnar.

Í handfærðu bókhaldi skal bókhaldsbókum lokað reglulega og eigi sjaldnar en á tveggja mánaða fresti. Niðurstöður einstakra reikninga skulu þá færðar í aðalbók.

Geymsla bókhaldsgagna

Fylgiskjöl með bókhaldinu skal tölusetja á reglubundinn hátt og til þeirra vísa við innfærslur í bókhaldsbækurnar. Þau skulu geymd í samfelldri töluröð. Allar bækur sem fyrirskipað er að halda skulu geymdar hér á landi á öruggan hátt í sjö ár, frá lokum viðkomandi reikningsárs. Ársreikning skal þó varðveita í 25 ár.