Um hlutafélög er fjallað í lögum nr. 2/1995, en um einkahlutafélög í lögum nr. 138/1994. Megineinkenni þessara tveggja tegunda félagsforma eru þau sömu en mismunandi reglur gilda um ýmis smærri atriði. Eitt af megineinkennum hlutafélaga og einkahlutafélaga er takmörkuð ábyrgð félagsmanna. Það er skilgreiningaratriði varðandi slík félög, að enginn félagsmanna ber persónulega ábyrgð á heildarskuldbindingum félagsins. Meginmunurinn á hlutafélögum og einkahlutafélögum samkvæmt ofangreindum lagabálkum er sá, að gert er ráð fyrir að hlutafélagaformið henti einkum þeim félögum þar sem hluthafar eru margir, hlutafé hátt og leitað er eftir hlutafé frá almenningi. Einkahlutafélög henta hins vegar betur þegar hluthafar eru fáir og ekki er leitað eftir fé frá almenningi. Þannig nægir t.d. að einungis einn hluthafi sé í einkahlutafélagi.
Af öðrum atriðum sem greina þessar tvær tegundir félaga að má nefna:
– Lágmarksfjárhæð hlutafjár í hlutafélögum er kr. 4 milljónir en lágmarkshlutafé í einkahlutafélögum er einungis kr. 500 þúsund.- Nægilegt er að einn eða tveir menn, auk varamanns, sitji í stjórn einkahlutafélags séu hluthafar fjórir eða færri en ef hluthafar eru fleiri þurfa stjórnarmenn að vera minnst þrír. Hins vegar skulu minnst þrír menn ávallt sitja í stjórn hlutafélags.
– Í hlutafélögum er skylt að ráða a.m.k. einn framkvæmdastjóra, en sú skylda er ekki fyrir hendi í
einkahlutafélögum
– Í hlutafélögum skulu gefin út hlutabréf en ekki er gert ráð fyrir útgáfu hlutabréfa í einkahlutafélögum Hlutafélög og einkahlutafélög eru sjálfstæðir skattaðilar skv. 1. tölul. 2. gr. laga um tekjuskatt og eignarskatt nr. 90/2003.
Um samvinnufélög gilda lög nr. 22/1991. Megineinkenni samvinnufélaga er, að þau eru félög sem stofnuð eru á samvinnugrundvelli með því markmiði að efla hag félagsmanna eftir viðskiptalegri þátttöku þeirra í félagsstarfinu. Í samvinnufélögum er félagatala óbundin, stofnfé ekki fastákveðin fjárhæð og félagsmenn og aðrir félagsaðilar bera ekki persónulega ábyrgð á heildarskuldbindingum félagsins. Samvinnufélög eru sjálfstæðir skattaðilar skv. 2. tölul. 2. gr. tekjuskattslaga.
Engin heildstæð löggjöf gildir um sameignarfélög. Sameignarfélög byggja á samningi milli tveggja eða fleiri félagsmanna. Einkenni sameignarfélaga er, að eigendur þeirra bera beina, óskipta og ótakmarkaða ábyrgð á skuldbindingum sameignarfélagsins. Samkvæmt ákvæðum firmalaga nr. 42/1903 eru ýmis sameignarfélög tilkynningarskyld. Það eru þau félög sem reka verslun, handiðnað eða verksmiðjuiðnað. Tilkynningu skal gera til firmaskrár í því umdæmi, þar sem skrifstofa atvinnunnar er. Samkvæmt 3. tölul. 2. gr. tekjuskattslaga geta sameignarfélög talist sjálfstæðir skattaðilar að ákveðnum skilyrðum fullnægðum. Skilyrði þess eru að félagið sé skráð í firmaskrá hér á landi, þess óskað við skráningu að félagið sé sjálfstæður skattaðili og við skráningu afhentur félagssamningur þar sem getið er eignarhlutfalla eigenda, innborgaðs stofnfjár svo og hvernig félagsslitum skuli háttað. Hjón ein sér eða með ófjárráða börnum sínum geta ekki myndað sameignarfélag, sem er sjálfstæður skattaðili.
Einkafirma er firma eins manns og ber viðkomandi einstaklingur ábyrgð á öllum skuldbindingum firmans. Ekki er skylt að skrá firma eins manns nema viðkomandi óski þess sjálfur. Ef firmanu er valið sérstakt heiti, annað en nafn eiganda er þó skylt að skrá það enda reki aðilinn verslun, handiðnað eða verksmiðjuiðnað. Einkafirma getur ekki verið sjálfstæður skattaðili.